Yfirvöld í Kaliforníu fylki í Bandaríkjunum stefna á að sala bifreiða sem ganga eingöngu fyrir bensíni verði ekki lengur leyfileg lögum samkvæmt árið 2035. Er þetta hluti af áherslum ríkisstjórans Gavin Newsom á umhverfisvænni orkugjafa. BBC greinir frá.

Í frétt BBC segir að þetta sé mikilvægt skref í baráttunni við loftlagsvánna, enda er Kalifornía fjölmennasta fylki landsins, með 29 milljónir íbúa. Auk þess er Kalifornía eitt stærsta hagkerfi heims. Ef Kalifornía væri sjálfstætt land væri það í fimmta sæti yfir verga landsframleiðslu, fyrir ofan stórveldi á borð við Bretland.

Nýju lögin munu þó ekki taka gildi fyrr en ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur samþykkt þau.