Kínverski seðlabankinn hefur breytt því hvernig hann fullnægir fjármagnsþörf fjármálakerfisins í landinu.

Þykjast greinendur sjá í þessu tilraun til að draga úr offjárfestingu í skuldabréfum sem hafa blásið út í kjölfar þess að mikið framboð hefur verið á ódýru fjármagni í landinu.

Úr 7 daga í 14 daga skammtímalán

Síðustu tvær vikurnar hefur seðlabanki landsins minnkað lánveitingar sínar á ódýrum, sjö daga lánum, svokölluð endurhverf viðskipti, sem þeir hafa lánað til viðskiptabanka í landinu á degi hverjum.

Í gær fóru bankinn þess í stað að veita dýrari 14 daga lán í endurhverfum viðskiptum, til að draga úr magni ódýrs skammtímafjármagns í hagkerfinu, og beina eftirspurn í átt að meiri langtímalántökum.

Ávöxtunarkrafan lækkar

Almennt eru slík skammtímalán nýtt til að svara daglegum fjármagnsþörfum fjármálafyrirtækja, en á síðustu árum hafa bankarnir í auknum mæli beint þessu fjármagni í fjárfestingar og til fjárfesta, sem fengið hafa féð að láni ódýrt og beint því inn í eignir líkt og skuldabréf.

Hefur það ýtt upp verði skuldabréfa og lækkað ávöxtunarkröfuna, en hún hefur farið úr því að vera 4,62% í janúar niður í 2,61% á þessum mánuði.

Jafnvel þreföld gírun

Er talið að slíkar lántökur hafi ýtt undir skuldsetningu í skuldabréfamörkuðum landsins sem er að andvirði um 8,5 þúsund milljarðar Bandaríkjadala, en talið er að gírun fjárfesta sé allt frá því að vera um 30% af heildareignum upp í tvöföldun til jafnvel þreföldun.

Aðgerðir seðlabankans eru taldar liður í að tilraunum til að draga úr bólumyndun, en í kjölfarið hækkuðu verð á skammtímaskuldum sem og verð kínverskra ríkisskuldabréfa.

Ávöxtunarkrafa og millibankavextir hækka

Fór ávöxtunarkrafa 10 ára kínverskra ríkisskuldabréfa í 2,72%, sem er hæsta sem þau hafa verið í síðan 8. ágúst.

Meðalvextir sjö daga millibankavaxta hækkuðu í 2,53% í gær, frá 2,40% á þriðjudag, en þetta er hæsta gildi þeirra síðan 8. júlí 2015.