Stjórnvöld í Grikklandi gera of lítið í því að ganga á eftir vangreiddum sköttum hinna efnameiri samkvæmt nýrri skýrslu Evrópusambandsins (ESB) og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem birt var í gær.

ESB og AGS eru sem kunnugt er helstu lánveitendur Grikklands um þessar mundir og vart þarf að rifja upp fyrir lesendum þau skuldavandaræði sem Grikkir hafa ratað í síðustu árin. Grikkir horfa nú fram á samdrátt í hagkerfinu, fimmta árið í röð, og til að mæta gífurlega háum uppsöfnuðum fjárlagahalla hafa bæði ESB og AGS hvatt stjórnvöld til að ganga harðar fram í því að innheimta skatta af efnameiri einstaklingum.

Það verður þó ekki alveg sagt að stjórnvöld í Aþenu hafi setið aðgerðarlaus í þessum málum. Í frétt Reuters þar sem fjallað er um skýrsluna kemur fram að í lok september höfðu grísk skattayfirvöld útbúið 440 stefnur vegna meintra skattsvika einstaklinga það sem af er þessu ári. Takmarkið var þó að útbúa 1.300 stefnur. Þá var búið að safna inn um 1,1 milljarði evra í aðgerðum stjórnvalda gegn skattsvikum en takmarkið var að innheimta um 2 milljarða evra á árinu.

Samkvæmt skýrslunni er talið að vangoldnir skattar einstaklinga og fyrirtækja í Grikklandi nemi um 53 milljörðum evra, sem er um 1/5 þessi fjármagns sem gríska ríkið hefur þurft að þiggja í neyðarlán á undanförnum tveimur árum. Talið er að ríkið geti innheimt um 15-20 af því fjármagni í ljósi þess að fjölmargir aðilar eru ýmist orðnir gjaldþrota, fluttir úr landi – nú eða það sem vegur einna þyngst í þessu að margir aðilar á svarta listanum yfir skattaskuldara eru ríkisrekin fyrirtæki.