Stærstu bankar evrusvæðisins verða að vera búnir að skila inn neyðaráætlunum um það hvernig þeir ætli að lifa af efnahagshremmingar án þess að kostnaðurinn lendi á skattborgurum. Þessar áætlanir hafa á ensku verið kallaðar „living wills“, en það er hugtakið sem notað er yfir fyrirmæli fólks um hvað læknar eigi að gera við það lendi það í alvarlegu slysi, eða hefur varanlega misst meðvitund. Reuters fréttastofan greinir frá.

Fyrirmælin koma frá evrópska bankaeftirlitinu og er 39 bönkum gert að skila inn slíkum áætlunum. Fimmtán þeirra hafa þegar hafið vinnu við áætlanagerðina. Í áætlununum á að koma fram hvernig bankarnir myndu afla sér lausafjár við erfiðar aðstæður, hvernig loka megi eða losa sig við ákveðna þætti rekstursins til að halda mikilvægri þjónustu gangandi.

Vonast er til að með þessu verði hægt að komast fyrir vandann sem nefndur hefur verið „too big to fail“. Í því felst að stórir bankar geta fjármagnað sig með ódýrum hætti vegna þess að lánadrottnar þeirra treysta því að ríkið muni hlaupa undir bagga með þeim ef í harðbakkann slær.