Elvar Eyvindsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í sveitarstjórn Rangárþings eystra, hefur lagt til að kannaðir verði kostir þess að byggt verði hús í miðbæ Hvolsvallar til að liðka fyrir því að lágvöruverðsverslun opni í bænum. Í samtali við Fréttablaðið telur Elvar að íbúar á Hvolsvelli greiði 20-30% hærra verð en aðrir. Eina matvöruverslunin í bænum er verslunin Kjarval. Í tillögu sem hann og Kristín Þórðardóttir hafa lagt fram kemur fram að sveitarfélagið þurfi ekki að eiga og reka húsnæðið. Það geti verið í höndum annarra.

Sveitarstjórinn Ísólfur Gylfi Pálmason segir sömuleiðis í samtali við blaðið að í langan tíma hafi verið rætt við þá sem reki Bónus, Nettó og Krónuna um að koma á Hvolsvöll. Hann segir hyggilegra að lágvöruverðsverslun fari í húsnæði sem sveitarstjórnin var að kaupa enda kosti ný bygging vart undir 300 milljónum króna.

Rangárþing eystra keypti nýverið fasteign við Austurveg 4 á Hvolsvelli þar sem Kaupfélag Rangæinga var áður og matvöruverslun Kjarvals er nú. er nú. Reiknað er með að sveitarstjórnarskrifstofurnar flytji í bygginguna.Hluti tillögu Elvars og Kristínar snýst um að Sögusetrið fái núverandi húsnæði Kjarvals.