*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 24. maí 2019 13:11

Vilja að svikari borgi 42 milljónir

Erfingjar dánarbús krefjast 42 milljóna frá flugstjóra sem var dæmdur fyrir að hafa fé af alzheimer-sjúklingi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Þrír erfingjar dánarbús hafa stefnt karlmanni á sextugsaldri til greiðslu 42 milljón króna auk vaxta frá árinu 2014. Stefndi í málinu var árið 2017 dæmdur í tólf mánaða fangelsi, þar af níu skilorðsbundið, fyrir misneytingu og er krafan til komin vegna þess brots.

Brotin áttu sér stað á haustmánuðum 2014. Maðurinn kom þá á hjúkrunardeild á Höfn í Hornafirði og fékk brotaþola málsins, sem þá var 87 ára gamall og haldinn minnisglöpum sökum alzheimer-sjúkdóms, til að millifæra 42 milljónir króna inn á reikning sinn. Einkenni sjúkdómsins bættust við þá staðreynd að hinn aldni hafði alla tíð verið óglöggur er kom að tölum. Eitt vitna málsins sagði til að mynda frá því að það hefði komið fyrir að hann hefði reytt fram 15.000 krónur til að greiða 1.500 króna skuld.

Sá dæmdi, sem hefur starfað sem flugstjóri hjá Atlanta, hafði verið í sveit hjá hjá hinum aldna, sem og bróður hans, á árum áður. Er hann komst á fullorðinsár dvaldist hann þar reglulega sem gestur. Bar hann því við að um sá aldni hefði boðið honum peningana að láni eftir að fjárhagsvandamál flugstjórans bar á góma. Sá framburður þótti afar ótrúverðugur og hlaut hann því dóm vegna þess. Þá var hann dæmdur til að endurgreiða dánarbúi mannsins hið illa fengna fé.

Þýskt heimilisfang finnst ekki

Skömmu áður en málflutningur í sakamálinu fór fram í Hæstarétti sendi lögmaður mannsins lögmanni dánarbúsins bréf. Þar bauðst hann til að reiða fram 2 milljónir króna og greiða síðan 500 þúsund á mánuði þar til skuldin yrði greidd að fullu. Var þá gert ráð fyrir því að dánarbúið félli frá einkaréttarkröfunni í sakamálinu. Var því hafnað af dánarbúinu þar sem engar tryggingar voru boðnar fram og ósennilegt að skuldin myndi innheimtast.

Bú flugstjórans var tekið til þrotaskipta með dómi Hæstaréttar á vormánuðum 2017. Skiptum lauk í janúar 2018 og var búið þar lýst eignalaust. Kvaðst maðurinn í skýrslutöku hjá skiptastjóra hafa selt eignir búsins, farið til Flórída og „haft það gott þar“.

Stefna í málinu er birt í Lögbirtingablaðinu þar sem ekki hefur tekist að birta manninum stefnuna. Frá árinu 2016 hefur hann haft lögheimili í Þýskalandi. Engin þjóðskrá er starfrækt þar ytra þá hefur Þýsk-Íslenska verslunarráðið ekki getað aðstoðað lögmann erfingjanna. Hið sama má segja um TCM Innheimtuþjónustu og flugfélagið Atlanta.

Skorað er á manninn að mæta við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 27. júní næstkomandi klukkan 10.00. Ella geti hann átt von á því að útivistardómur gangi um málið og kröfur erfingjanna verði teknar að fullu til greina.

Stikkorð: Dómsmál
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is