„Við viljum vita hvernig ákveðið var í samtali tveggja manna að lána Kaupþingi gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar í einu lagi,“ segir Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og formaður fjárlaganefndar Alþingis. Nefndin ákvað á fundi sínum í morgun að afhenda Alþingi drög að skýrslu um 80 milljarða króna þrautavaralán sem Seðlabankinn veitti Kaupþingi 6. október árið 2008. Þingmenn Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Fjárlaganefnd hefur lengi þrýst á Seðlabankann að fá afhent afrit af símtalinu á milli Davíðs Oddsonar og Geirs H. Haarde sem ákváðu að veita lánið en ávallt fengið neitun. Nú segir Björn Valur nóg komið.

„Seðlabankinn hefur ítrekað neitað okkur um upplýsingar um það hvers vegna þetta lán var veitt, neitað okkur um afrit af símtali á milli þáverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóra. Núverandi seðlabankastjóri hefur sagt upptöku sýna samráð þeirra um lánveitinguna,“ segir Björn Valur en ásamt því að leggja málið í hendur þingmanna munu forseti Alþingis fá bréf þar sem farið er fram á að þingið fari yfir málið.

„Það er ekki hægt að sætta sig við það að lánveiting af þessu tagi á þessum tíma hafi verið framkvæmd með þeim hætti miðað við þær upplýsingar sem við höfum. Þingið verður að beita einhverjum öðrum brögðum, setja rannsókn af stað eða færa málið á annað stig sem getur valdið því að seðlabankinn veiti upplýsingarnar,“ segir Björn Valur.