Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands samþykktu á nýlegum fundi áskorun til stjórnvalda gegn m.a. sjálfboðaliðum. Samkvæmt ályktun félaganna er þess krafist að stjórnvöld grípi til aðgerða vegna þess sem þeir kalla félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Er þar sérstaklega vísað í ferðaþjónustu og byggingariðnað og sagt að jafnvel sé um beina misnotkun á fólki sem kemur hingað til lands til starfa að ræða.

„Aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands hafa orðið vör við þessa þróun ásamt ótal birtingamynda félagslegra undirboða.

Má þar nefna:

  • Ólöglega sjálfboðaliðastarfsemi
  • Launastuld
  • Ófullnægjandi ráðningasamninga
  • Misnotkun á vinnandi fólki
  • Brot á ákvæðum um hvíldartíma
  • Óviðunandi aðbúnað
  • Misnotkun í tengslum við útleigu íbúðarhúsnæðis í eigu atvinnurekanda“

Meðal annars vilja formennirnir að eftirlit með vinnustöðum verði samræmt og þétt um land allt, og vísað í aðgerðir stofnana eins og Vinnueftirlitsins, Vinnumálastofnunar, Ríkisskattstjóra, lögreglu auk stéttarfélaga.

Jafnframt vilja þau að launaþjófnaður eins og það er orðað verði sektarskyldur, en í dag geta stéttarfélög einungis gert kröfu um afturvirkar launagreiðslur með dráttarvöxtum ef misbrestur verður á greiðslu launa. Loks segir í ályktuninni að uppræta verði ólögleg sjálfboðaliðastörf auk mansals.