Í dag lagði Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður fram frumvarp um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda sem felur í sér að launagreiðanda verði gert að aðgreina útsvar og tekjuskatt á launaseðli launamanns. Meðflutningsmenn Guðlaugs eru sjö aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að með þessu eigi launamenn kost að sjá hvernig staðgreiðsla skatta skiptist milli ríkis og sveitarfélaga og sé frumvarpinu ætlað að auka gagnsæi í opinberum fjármálum og bæta fjármálalæsi.

Ríkisskattstjóri aðgreinir tekjuskatt og útsvar við álagningu en verði frumvarp þetta að lögum munu upplýsingarnar birtast á sjálfum launaseðlinum.