Félag atvinnurekenda fagnar því að flutningsmenn áfengisfrumvarpsins á yfirstandandi þingi hafi tekið mark á þremur meginathugasemdum sem félagið setti fram vegna fyrri frumvarpa. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Félagið telur að breytingar á frumvarpinu séu til verulegra bóta, en bæta þurfi við það ákvæðum um breytt fyrirkomulag á innheimtu áfengisgjalda. Ella sé hætta á að áfengisframleiðendum og -innflytjendum sé valdið verulegu tjóni að óþörfu.

Í umsögn FA um frumvarpið, sem send hefur verið Alþingi, er ýtarleg umfjöllun um rökin fyrir afnámi auglýsingabanns og breytingum á innheimtu áfengisgjalds, samhliða frjálsri smásölu áfengis.

Vilja lengri aðlögunartíma

Þá telur félagið nauðsynlegt að veita lengri aðlögunartíma vegna breytinganna en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. „Félag atvinnurekenda telur þetta mál hafa tekið miklum og jákvæðum breytingum frá síðustu tveimur þingum,“ segir í umsögn FA.

„Félagið telur þó að óforsvaranlegt væri að Alþingi samþykkti frumvarpið án þess að bæta við það ákvæðum um breytta innheimtu áfengisgjalds.

Að sama skapi telur FA afar mikilvægt að tveir meginþættir frumvarpsins fari saman, afnám einkaréttar ríkisins á áfengissölu og afnám auglýsingabanns.

Félagið hefur fært málefnaleg rök fyrir því að farsælast sé að þetta þrennt haldist í hendur og getur eingöngu að því gefnu mælt með því að frumvarpið verði að lögum.“