Stefnuskrá landsþings Repúblikana sem nú er í gangi kallar eftir endurreisn Glass-Steagall laganna, sem mæla fyrir um aðskilnað einkabanka- og fjárfestingabankaþjónustu í Bandaríkjunum.

Á stefnuskrám beggja flokka

Þar með eru stefnuskrár beggja helstu stjórnmálaflokkanna í landinu að mæla fyrir um slíkan aðskilnað. Hafa verður þó í huga að stefnuskrár flokkanna hafa litla vigt í Bandaríkjunum, þó það geti gefið vísbendingar um hvað gerist á þingi síðar meir.

Glass-Steagall lögin voru lög sem sett voru á tímum kreppunnar miklu, sem mæltu fyrir um aðskilnað einkabankaþjónustu og fjárfestingarbankaþjónustu. Lögin voru afnumin árið 1999. Telja sumir gagnrýnendur að rýmkun þessara reglna hafi leitt til fjármálakrísunnar árið 2008.

Verður notað gegn Hillary

„Við trúum því að Obama-Clinton árin hafi leitt til lagasetninga sem hafi hentað stóru bönkunum, sem er ein af ástæðunum sem við sjáum allt féð frá Wall Street fara til stuðnings Hillary Clinton,“ sagði Paul Manafort kosningastjóri Trump.

Ummæli Manafort eru talin benda til þess að Repúblikanar hyggist nota málið í baráttunni við Hillary Clinton, þar sem þetta mál var eitt af því sem skildi á milli hennar og Bernie Sanders, helsta keppinautar hennar um útnefningu Demókrata.