Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar ásamt fulltrúum úr öllum þingflokkum að Sjálfstæðisflokki undanskildum  um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka.  Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en þar segir Ragnheiður E. Árnadóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, þá ekki hafa talið ástæðu til að vera með á tillögunni þar sem flokkurinn hafi þegar í vetur lagt fram hugmyndir í efnahagsmálum þar sem lagður sé til sams konar aðskilnaður. Tillögurnar séu til umfjöllunar í nefnd.

Í greinargerð með tillögu Álfheiðar segir að lagasetning á þessu sviði muni sennilega taka breytingum í sumum nágrannaríkjum á næstunni. "Flutningsmenn tillögunnar telja að ekki megi dragast lengur að breyta lagaumhverfi fjármálafyrirtækja hér á landi og aðskilja áhættusama fjárfestingarstarfsemi og hefðbundna bankastarfsemi annaðhvort algerlega í ótengdum fyrirtækjum eða með aðskilnaði innan hvers fjármálafyrirtækis," segir í frétt Morgunblaðsins um málið.