Þrotabú Glitnis hefur formlega óskað eftir samþykki Seðlabanka Íslands fyrir undanþágu frá gjaldeyrishöftum til að geta staðfest fyrirhugaðan nauðasamning sinn.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag en samkvæmt heimildum blaðsins felur tillaga Glitnis meðal annars í sér útgáfu á svokölluðu gullnu hlutabréfi (e. golden share) sem gefið yrði út til Seðlabankans og myndi tryggja honum neitunarvald gagnvart breytinum á samþykktum þess eignaumsýslufélags sem verður til að nauðasamningaferlinu loknu. Seðlabankinn myndi til dæmis geta hafnað breytingum á fjárfestingarstefnu félagsins eða brottflutningi þess úr landi.

Fram kemur í frétt Fréttablaðsins að Kaupþing sótti um undanþágu til að ganga frá sínum nauðasamningi í síðasta mánuði. Enn sem komið er hefur Seðlabankinn hvorki svarað erindum Kaupþings né Glitnis.