Tveir kröfuhafar sem ekki hafa fengið fé sem þeir lögðu í íbúðarrétt hjá hjúkrunarheimilinu Eir hafa kært niðurstöðu Sýslumannsins í Reykjavík til að freista þess að fá aflétt veðskuldabréfum Íbúðalánasjóðs (ÍLS) af fasteignum Eirar. Sýslumaður hafnaði því að aflétta veðskuldabréfunum. Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Er greint frá þessu í Fréttablaðinu í dag.

„Það gæti verið ef þessar íbúðir reynast ekki meira virði en veðskuld Íbúðalánasjóðs að það verði ekkert eftir í búi Eirar til að greiða íbúðarréttarhöfunum,“ segir Sigríður Kristinsdóttir, lögmaður íbúðarréttarhafanna.

Rétthafarnir, sem nú hafa höfðað mál, telja að Eir hafi ekki staðið rétt að því að veðsetja eignirnar. Samkvæmt lögum hafi stjórnendum Eirar borið að fá leyfi fyrir veðsetningunni hjá sýslumanni. Það hafi ekki verið gert, og því beri sýslumanni að aflétta veðsetningunni, enda ólöglega til hennar stofnað.

Íbúðalánasjóður lánaði Eir um 1,9 milljarða króna á árunum 2007 til 2010 til byggingar á 120 íbúðum í fjórum húsum og tók á móti veð í húsunum. Miklu skiptir fyrir íbúðarrétthafa hvort Íbúðalánasjóður teljist veðhafi eða almennur kröfuhafi Eirar vegna þessara skulda. Raunar á eftir að takast á um það hvort íbúðarrétthafar teljist almennir kröfuhafar eða hvort þeir eigi veðkröfu.