Guðlaugur Þór Þórðarson og ellefu aðrir þingmenn úr Sjálfstæðisflokki hafa lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu þar sem óskað er eftir mótun viðskiptastefnu fyrir Ísland. Tilgangurinn er sá að jafna samkeppnisstöðu innlendrar verslunar gagnvart erlendri með frekari lækkun tolla og vörugjalda og lækka þar með vöruverð til hagsbóta fyrir neytendur, eins og segir í ályktuninni.

„Ástandið í dag er skattur á fátækt fólk. Þeir sem ekki hafa efni á að fara til annarra landa til að versla sitja uppi með hærra vöruverð. Sem dæmi benda kannanir Capacent Gallup til þess að stór hluti af fatakaupum Íslendingaeigi sér stað erlendis,“ segir í þingsályktunartillögunni.

Þingmennirnir óska eftir því að horfið verði frá þeirri braut að fella eingöngu niður tolla og vörugjöld vegna tvíhliða fríverslunarsamninga og að tekin verði upp sú stefna að fella einnig einhliða niður tolla og vörugjöld á ýmsar vörur.