Samtök heilsuræktarstöðva – SHS voru stofnuð í lok janúar sl. og starfa sem starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunun.

Helstu áhersluverkefni SHS fyrir árið 2008 eru samkvæmt tilkynningunni:

1. Afnám skattlagningar heilsuræktarstyrkja fyrirtækja til starfsmanna sinna

2. Teknar verði upp heilsuávísanir/hreyfiseðlar frá læknum til heilsuræktarstöðva sem liður í meðhöndlun örorku og sjúkdóma

3. Frístundakort sveitarfélaga nýtist korthöfum til kaupa á þjónustu

„Megintilgangurinn með þessu er að stuðla að betri heilsu landsmanna með þátttöku atvinnurekenda í kostnaði sem aftur ætti að leiða til lægri útgjalda ríkissjóðs til heilbrigðismála. Ekki hefur verið litið á greiðslur vinnuveitanda til starfsmanna vegna íþróttaiðkana sem frádráttarbæran rekstrarkostnað nema hann sé gefinn upp á launamiðum sem hlunnindi starfsmanna,“ segir í tilkynningu frá hinu nýja félagi.

„Að mati SHS eru það ótvíræðir hagsmunir vinnuveitanda að starfsmenn séu við góða heilsu. Heilbrigðir og hraustir starfsmenn eru líklegri til að skila meiri tekjum til fyrirtækja og gildir þá einu á hvaða sviði það er.  Vakin er athygli á því að SA óskaði eftir því að þetta atriði yrði tekið upp í skattapakka ríkisstjórnarinnar vegna síðustu kjarasamninga.“

Í stjórn samtakanna eru:

Ágústa Johnson, hjá Hreyfingu – formaður

Sævar Pétursson, Iceland Spa and Fitness

Björn Leifsson, Þrek ehf/World Class.

Varamenn eru:

Linda B. Hilmarsdóttir hjá Hress

Ragnheiður Birgisdóttir, Nordica Spa, varaformaður