*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 17. nóvember 2017 15:03

Vilja afnám þaks á endurgreiðslur

Forstjórar Össurar, CCP, Nýherja og Nox Medical hvetja nýja stjórn til að veita hærri skattaafslátt vegna nýsköpunar.

Ritstjórn
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja og Pétur Már Halldórsson, forstjóri Nox Medical.
Aðsend mynd

Forstjórar fjögurra þekktra íslenskra nýsköpunarfyrirtækja hvetja nýja ríkisstjórn til að afnema endurgreiðsluþak af nýsköpun sem veitir skattaafslátt. Þeir segja þetta eitt stærsta skrefið sem hægt sé að stíga til að gera Ísland samkeppnishæfara við nágrannalöndin á sviði rannsókna og þróunar að því er fram kemur í aðsendri grein í Morgunblaðinu.

Endurgreiðslurnar voru fyrst teknar upp hér á landi fyrir fimm árum og reynslan af þeim hefur verið talin góð segir í fréttatilkynningu frá Samtökum iðnaðarins um málið. Fjárfesting í rannsóknum er sögð vera í eðli sínu áhættufjárfesting sem ekki er víst að skili sér tilbaka en skilar sér þó ávallt í aukinni þekkingu íslenskra fyrirtækja.

Stærri nýsköpunarfyrirtæki landsins fjárfesta á ári hverju mun meira í rannsóknum og þróunarstarfi en sem nemur þakinu á endurgreiðslurnar, en það miðast við 300 milljóna króna fjárfestingu og 60 milljóna króna hámarks skattaafslátt. 

Í greininni sem Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja og Pétur Már Halldórsson, forstjóri Nox Medical, skrifa kemur fram að hlutfall skattaendurgreiðslu vegna fjárfestingar í nýsköpun sé hærra í þeim löndum sem hafa markað sér skýra stefnu um að byggja upp hátækniiðnað. 

Víðast hvar ekkert þak

Í Ástralíu sé hlutfallið allt að 43% og í Kanada allt að 50% en á Íslandi er það nú 20%. Þá sé víðast hvar ekki sett þak á endurgreiðslur vegna fjárfestinga í rannsóknum og þróun – ólíkt því sem gert er á Íslandi. 

Ástæðan séu hin jákvæðu áhrif sem nýsköpun er talin hafa á hagkerfið. Í lok greinarinnar hvetja forstjórarnir fjórir nýja ríkisstjórn til að stíga þetta skref nú. Það sé nauðsynlegt svo ungt fólk á Íslandi geti haft val um fjölbreytt, áhugaverð og alþjóðlega samkeppnishæf störf.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI segir samtökin taka fyllilega undir þessi sjónarmið forstjóranna fjögurra. „Við höfum oft sagt að hugvit verði drifkraftur vaxtar á 21. öldinni og því þarf að hvetja til nýsköpunar, í hvaða formi sem hún kann að vera,“ segir Sigurður.

„Mikilvægur liður í því er að starfsumhverfið sé samkeppnishæft við önnur lönd. Á Tækni- og hugverkaþingi SI í október sögðust allir stjórnmálaflokkar vera viljugir til að styðja við nýsköpun og hugvit en á opnum fundi okkar með fulltrúum flokkanna nokkrum dögum síðar kom hins vegar í ljós að ekki allir voru tilbúnir til þess að lofa aðgerðum á næstunni. 

Við teljum ljóst að það verður að styðja við nýsköpun og hugvit eigi næstu kynslóðir þessa lands að búa við sambærileg lífskjör og við þekkjum. Næsta ríkisstjórn þarf að búa yfir kjarki til þess að horfa langt fram í tímann og byggja undir vöxt á grundvelli nýsköpunar. Vonandi sjást þess merki í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.“