*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Innlent 14. október 2019 14:21

Vilja afnema blómatolla

Félag atvinnurekenda og 25 blómabúðir skora á stjórnvöld að fella niður tolla á innflutning blóma.

Ritstjórn
Innkaupsverðið hartnær þrefaldast þegar tollar leggjast á innflutning blóma.

Félag atvinnurekenda hefur skrifað fjármálaráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra samhljóða erindi og óskað viðræðna við ráðuneyti þeirra um niðurfellingu tolla á blómum. Frá þessu er greint í frétt á vef FA þar sem er bent á það óhagræði, háa verð og samkeppnishömlur sem leiði af háum blómatollum. 

„Í erindi FA til ráðherranna er bent á að á árunum 2016 og 2017 hafi verið hrint í framkvæmd áformum um að fella niður tolla á öllum vörum nema matvörum, eins og þáverandi fjármálaráðherra orðaði það 2015. Einhverra hluta vegna hafi tollar á blóm orðið eftir, þótt röksemdir um matvælaöryggi, sem notaðar hafa verið til að réttlæta áframhaldandi tolla á matvörum, eigi augljóslega ekki við um blóm.

FA bendir á hvernig háir tollar stuðli að alltof háu verði á blómum. Blómatollar samanstanda annars vegar af 30% verðtolli og hins vegar stykkjatolli sem leggst á hverja einustu plöntu, sama hvort um er að ræða pottablóm eða afskorin blóm. Þannig leggst á flest innflutt pottablóm 30% verðtollur og 200 króna stykkjatollur. Segjum að innflutningsverð pottaplöntu sé 300 krónur. Hún ber þá 290 krónur í toll og innflutningsverðið tvöfaldast því sem næst. Á afskorin blóm leggst oftast 30% verðtollur og auk þess 95 króna stykkjatollur á hvert blóm. Tíu túlipana búnt, sem kostar 600 krónur í innkaupum, fær á sig 1.130 krónur í toll, þannig að innkaupsverðið hartnær þrefaldast. Þegar um er að ræða ódýrari blóm, til dæmis fresíur, er innkaupsverðið á hverju blómi u.þ.b. 20 krónur, en tollurinn endar í 101 krónu – enda hafa fresíur ekki fengist á Íslandi í mörg ár.“

Erindi FA fylgir stuðningsyfirlýsing 25 blómaverslana, -innflytjenda og -verkstæða víða um land, sem í sameiningu standa fyrir drjúgum meirihluta blómaverslunar og blómainnflutnings á Íslandi.

Í niðurlagi bréfsins til ráðherranna lýsir FA sig reiðubúið til viðræðna við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og fjármálaráðuneytið um leiðir til að auka frelsi í innflutningi á blómum og fella niður tolla, jafnt versluninni í landinu sem neytendum til hagsbóta. Félagið leggur til að fulltrúar blómaverslana og innflytjenda á blómum verði jafnframt kallaðir til í þeirri vinnu.