Starfshópur á vegum samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis leggur til að fjöldatakmarkanir á útgefnum atvinnuleyfum til leigubílaaksturs verði afnumdar. Hópurinn, sem var skipaður til að endurskoða í heild regluverk um leigubifreiðaakstur á Íslandi, skilaði lokaskýrslu í dag. Skýrsluna má nálgast hér .

Starfshópurinn skilaði áfangaskýrslu til ráðherra þann 6. febrúar 2018. Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um kemur þar fram að starfshópurinn telur rétt að afnema fjöldatakmarkanir á útgefnum atvinnuleyfum til leigubifreiðaaksturs og að fallið verði frá lögbundinni stöðvarskyldu, m.a. með tilvísun til álits eftirlitsstofunar EFTA (ESA) gagnvart Noregi og frumkvæðisathugunar ESA gagnvart Íslandi, eins og segir í skýrslunni. Starfshópurinn telur ekkert því til fyrirstöðu að farveitur á borð við Uber bjóði þjónustu sína hér á landi, að því gefnu að þær fylgi sömu reglum og aðrir sem bjóða leigubílaakstur.

Þá leggur starfshópurinn til að starfsemi leigubifreiða verði háð skilyrðum sem eiga að tryggja öryggi og gæði þjónustunnar og tvenns konar leyfi séu til staðar, þ.e. atvinnuleyfi, sem er leyfi til að aka leigubifreið, og rekstrarleyfi, sem er leyfi til að reka eina leigubifreið.

Með þessu fyrirkomulagi er gert ráð fyrir að rekstrarleyfishafi taki á sig þær skyldur sem hvíla í dag á leigubifreiðastöðvum. Þannig muni rekstrarleyfishafi bera endanlega ábyrgð á rekstri bifreiðar sem notuð er í leigubílaakstri, þ.e. að bifreiðin sé með viðeigandi leyfisskoðun, hafi fullnægjandi tryggingar og uppfylli aðrar kröfur sem gerðar eru til hennar, auk þess sem rekstrarleyfishafi stendur skil á opinberum gjöldum vegna reksturs hennar.

Þá ber rekstrarleyfishafa að halda utan um skrá með upplýsingum um þann atvinnuleyfishafa sem keyrir bifreiðina hverju sinni og hann þarf að geta gert grein fyrir slíkum upplýsingum gagnvart Samgöngustofu, t.d. í gegnum gagnagrunn stofnunarinnar.