Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, vill afnema sóttkví hjá óbólusettum ferðamönnum sem koma hingað til lands. Morgunblaðið greinir frá.

Ferðamenn með vottorð um bólusetningu eða fyrri sýkingu þurfa ekki að fara í sóttkví og dugar að fara í eina sýnatöku á landamærum. Óbólusettir ferðamenn þurfa hins vegar að sýna fram á neikvætt PCR, fara í tvær sýnatökur og fimm daga sóttkví.

„Það sem mun skrúfa almennilega frá krananum er þegar við getum breytt reglum á landamærunum þannig að sóttkvíin verði afnumin. Það verði, eins og var búið að tala um að yrði jafnvel 1. júlí, bara einföld skimun fyrir alla. Því var frestað allavega til 15," segir Bjarnheiður í samtali við Morgunblaðið.

„Það er í rauninni það sem ferðaþjónustan er að bíða eftir, því að þá getum við sagt að það sé búið að aflétta öllum takmörkunum og þá getur ferðaþjónustan farið í fullan gang."

Í dag eru Bandaríkjamenn rúmur helmingur allra þeirra sem að heimsækja landið en bólusetningar þar hafa gengið vel. Þá voru þeir jafnframt ábyrgir fyrir um tveimur þriðju hluta erlendar kortaveltu á landinu í maímánuði.