*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 16. desember 2017 18:52

Vilja afnema stimpilgjald

Átta þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um afnám stimpilgjalds vegna húsnæðiskaupa einstaklinga.

Ritstjórn
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Eva Björk Ægisdóttir

Átta þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði afnumið. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Páll Magnússon, Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir og Brynjar Níelsson leggja fram frumvarpið.

Einstaklingum ber nú almennt að greiða 0,8% stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Þó er veittur helmingsafsláttur þegar um fyrstu kaup er að ræða. Verði frumvarpið að lögum mun gjaldið falla alfarið niður og verður undanþágan ekki bundin við fyrstu kaup.

Markmið frumvarpsins er að auðvelda fólki að kaupa sér íbúð og auka skilvirkni og flæði á íbúðarmarkaði.

Í þingskjalinu segir að afnám stimpilgjald muni draga úr verðþrýstingi á húsnæðismarkaði.

„Sýnt þykir að stimpilgjald hafi áhrif til hækkunar fasteignaverðs, dragi úr framboði og rýri hlut kaupenda og seljenda. Af framangreindu má ætla að afnám stimpilgjalds af fasteignaviðskiptum muni auðvelda verðmyndun á húsnæðismarkaði með tilheyrandi aukningu á framboði sem hefur verið með minnsta móti undanfarin ár.“

Frumvarpið var áður flutt á 146. og 147. löggjafarþingi, en hlaut ekki afgreiðslu.