Nýi borgaraflokkurinn, sem er nýr stjórnmálaflokkur á hægri væng danskra stjórnmála, stefnir að því að leggja af alla tolla og kvóta á innflutning einhliða, segir Pernille Vermund formaður flokksins.

Segir hún að slík aðgerð myndi bæta hag Danmerkur um 20 milljarða danskra króna.

Fylgja Bretlandi frekar en Frakklandi

„Innflutningskvótar og tollar gera samfélög dýrari," segir Pernille Vermund í danska blaðinu Finans .

„Við þurfum að fylgja Bretlandi frekar heldur en Frakklandi. Danmörk og Bretland hafa langa sameiginlega sögu sem verslunarríki. Lönd okkar urðu auðug vegna opinna viðskipta við umheiminn.

Frakkland hins vegar hefur langa sögu viðskiptahindrana og frambjóðendur í kosningunum í vor keppast um að sanna það fyrir kjósendum að þeir muni tryggja vernd franskra starfa.

Le Pen og sósíalistar á sömu bylgjulengd

Marine Le Pen er þar háværust, en frambjóðandi sósíalista, Benoit Hamon er á sömu bylgjulengd."

Einnig segir hún í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu sé líklegt að Evrópusambandið verði jafnvel enn lokaðra sem geri það síður fært til að nýta sér hnattvæðinguna.

Evrópusambandið ekki drifkraftur hagvaxtar

„Danir hafa aldrei elskað Evrópusambandið sem pólitískt markmið í sjálfu sér. Sambandið er ekki drifkraftur hagvaxtar í dag í hagkerfi heimsins, heldur er það svæði með litlum hagvexti," segir Pernille og vísar einnig í fjölmörg önnur vandamál sambandsins til að mynda varðandi flóttafólk.

„Markmið um Bandaríki Evrópu skorta jafnframt stuðning almennings. Efnahagslegu rökin fyrir að viðhalda aðild Danmerkur í Evrópusambandinu hafa veikst. Það er kominn tími til að finna nýjar veiðilendur, í nafni frelsis, frjálsrar verslunar og fullveldis."