Samtök verslunar og þjónustu telja tímabært að afnema vörugjöld, sem stundum eru kölluð duldi skatturinn. Samtökin telja vörugjöld vera leifar af gömlum verndartollum sem eru lagðir tilviljanakennt á ýmsar vörur. Til dæmis eru vörugjöld á hátalara til heimilisnota 25% af innflutningsverðinu auk 7,5% tolla og 24,5% virðisaukaskatts. Í Danmörku er einungis lagður 4,5% tollur á sömu hátalara sem framleiddir eru utan Evrópu auk virðisaukaskatts. "Með afnámi vörugjalda væri stigið stórt skref til að samræma verðlag hér við nágrannalönd okkar," segir í frétt SVÞ.

Vörugjöld voru tekin upp í kjölfar þess að Íslendingar gengu í EFTA árið 1970 og þurftu þá að afnema eða lækka tolla. Vörugjöldum var þannig ætlað að mæta tekjutapi ríkisins vegna afnáms tolla sem áður höfðu verið. Gjaldið er innheimt jafnt af innfluttum og innlendum vörum. Gerðar hafa verið fjölmargar breytingar á vörugjöldum og eftir stendur óskapnaður sem er illskiljanlegur og ógagnsær. Til dæmis leggjast vörugjöld á hreinan ávaxtasafa en ekki á sæta mjólkurdrykki. Þá eru mismunur á því hvort brauð er ristað lárétt eða lóðrétt, því engin vörugjöld eru á hefðbundnum brauðristum en hins vegar eru vörugjöld á samlokugrillum sem virka þó eins og brauðristar.

Tekjur ríkisins af vörugjöldum á síðasta ári voru liðlega 27,5 milljarðar króna og hækkuðu um meira en 3 milljarða á milli ára. Ætla má að af þessari upphæð hafi um 1,8 milljarður króna verið vörugjöld af matvælum. Gera má ráð fyrir að tekjur ríkisins af vörugjöldum á þessu ári hækki umtalsvert vegna aukins innflutnings á bílum og öðrum dýrum vörum sem bera vörugjöld.

"Vörugjöld eru verndartollar þó að þau séu lögð á innfluttar og innlendar vörur, því þau valda ójafnri samkeppni á markaði. Þau eiga líka að stýra neyslu en virka trauðla þannig. Engu að síður hafa vörugjöld verulega þýðingu í alþjóða samkeppni og samanburði á verðlagi hér og í öðrum löndum," segir í frétt SVÞ.