*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 1. febrúar 2019 20:22

Vilja afskrá Heimavelli og kaupa aðra út

Fjárfestarnir Finnur R. Stefánsson og Tómas Kristjánsson hafa lagt fram tillögu um að afskrá Heimavelli úr Kauphöll Íslands.

Ritstjórn
Guðbrandur Sigurðsson, fráfarandi forstjóri Heimavalla hringdi félagið inn í Kauphöll Íslands 24. maí í fyrra.
Haraldur Guðjónsson

Félög í eigu fjárfestanna Finns R. Stefánssonar og Tómasar Kristjánssonar hafa lagt fram tillögum um að afskrá leigufélagið Heimavelli úr Kauphöll Íslands. Samtals eiga þeir tæplega 19% hlut í Heimavöllum. Í bréfi frá þeim til stjórnar Heimavalla segir að skráning Heimavalla á markað í fyrra hafi ekki skilað væntum ávinningi fyrir hluthafa og félagið. Frá skráningu á markað í maí í fyrra hefur gengi bréfa í Heimavöllum verið undir upplausnarvirði félagsins.

Tillagan kemur fram degi eftir að greint var frá því að Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, hefði sagt starfi sínu lausu.

Í bréfinu segir að Sigla ehf., sem er í eigu Finns og Tómasar og sjö milljarða framtakssjóðurinn Alfa Framtak ehf. muni fjármagna tilboð í hluti í 17,09% hlut í Heimavöllum á genginu 1,3 krónum á hlut, en dagslokagengi bréfa í Heimavöllum í Kauphöll Íslands í dag nam 1,19 krónum á hlut. Hámarksfjárhæð tilboðsins nemur 2,5 milljörðum króna.

Þá sé tilgangur tilboðsins sé að auðvelda afskráningu Heimavalla og veita hluthöfum sem hugnist ekki afskráning kost á að selja. Ljóst sé að seljanleiki bréfanna muni minnka við afskráningu ásamt því að upplýsingagjöf til hluthafa verði takmarkaðri.

Komi til þess að umframeftirspurn verði mun hlutur hvers hluthafa skerðast hlutfallslega, en tilboðsgjafi áskilur sér rétt til þess að auka við þann fjölda hluta sem hann býðst til þess að kaupa. Tilboðið stendur öllum hluthöfum til boða að undanskildum þeim sjálfum. Arctica Finance hf. mun hafa umsjón með tilboðinu.

 

Stikkorð: Heimavellir