Rétt er að almenningur fái drjúgan hlut eignar sinnar í ríkisbönkunum milliliðalaust í hendur samhliða skráningu bankanna á markað. Er þetta meðal þess sem fram kemur í stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var á flokksráðsfundi flokksins í dag. Er talað um að almenningsvæða eigi bankana.

Þar segir að ráðast eigi í undirbúning og stofnun stöðugleikasjóðs. Í sjóð þennan rynni arður af orkuauðlindum í eigu ríkis. Sjóðurinn yrði sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið, aftraði ofhitnun er vel áraði og kæmi í veg fyrir pólitískar freistingar með arðinn, að því er segir í ályktuninni.

Þar segir jafnframt að nýta eigi svigrúmið, sem landbúnaðinum hafi verið gefið með búvörusamningunum, og leggja drög að nýjum og fjölbreyttari búskaparháttum á grundvelli einkaframtaks og frjálsra markaðshátta og samkeppni milli landa sem innanlands.