Vinnuhópur forsætisráðherra sem var skipaður þann 27. júní á þessu ári hefur skilað áfangaskýrslu sinni. Þetta kemur fram á vef forsætisráðuneytis.

Meðal helstu tillagna eru að:

  • sett verði almenn lög um starfshætti eftirlitsstofnana og annarra aðila sem hafa opinbert eftirlit með höndum,
  • heildarendurskoðun verði gerð á eftirlitsstofnunum þar sem verkefni þeirra verða greind og að því búnu verði verkefni sameinuð og samþætt,
  • sett verði sérlög um hverja eftirlitsstofnun fyrir sig sem afmarka stjórnskipulag, valdheimildir og starfsemi viðkomandi eftirlitsstofnana,
  • settar verði reglur sem tryggja að eftirlitsstofnunum sé gert að greina áhættur, beina eftirliti sínu að því að draga úr þeirri áhættu sem skilgreind hefur verið og svo meta árangur af þeim eftirlitsaðgerðum,
  • fjárveitingar til eftirlitsstofnana verði grundvallaðar á áhættugreiningu og árangursmati,
  • settar verði reglur um frammistöðumat og gæðastjórnun eftirlitsstofnana til að tryggja gæði í starfsemi þeirra,
  • leitast verði við að samræma kæruleiðir og úrskurðarnefndir til að einfalda það kerfi frá því sem nú er og staðla það eins og kostur er,
  • tekið verði upp þinglegt eftirlit þar sem þingnefnd verði falið það verkefni að hafa eftirlit með starfsemi eftirlitsstofnana,
  • unnið verði markvisst að því að efla aðhald markaða við reglufylgni, sem er til þess fallið að daga úr þörf fyrir sérstakt eftirlit.

Tillögurnar miða að því að bæta starfshætti eftirlitsstofnana þannig að markmiðum þeirra sé náð og að starfsemi þeirra sé hagkvæm, en þær þykja ekki nægilega skilvirkar eins og sakir standa.

Í tilkynningunni kemur fram að hópinn skipi Skúli Sveinsson formaður, Garðar G. Gíslason varaformaður, Jón Gunnarsson alþingismaður, Jóhanna María Sigmundsdóttir alþingismaður, Gísli M. Auðbergsson lögmaður og Katrín Pétursdóttir framkvæmdastjóri, auk þess sem Ásmundur Einar Daðason alþingismaður og aðstoðarmaður forsætisráðherra starfaði með hópnum.