Þingmenn Norðvesturkjördæmis samþykktu á dögunum þingsályktun þar sem skorað er á ríkisstjórnina að koma á átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun.

„Þessi tillaga er algjörlega í samræmi við það sem við höfum verið að segja,“ segir Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri á Blönduósi. „Stjórnvöld og hagsmunaaðilar eins og Landsvirkjun, Farice, Míla og sveitarfélögin þurfa að stilla saman strengi sína ef það á að lokka þennan iðnað til landsins og auka hér erlenda fjárfestingu.“ Samningar um byggingu gagnavers á Blönduósi voru nokkuð langt komnir fyrir nokkrum misserum.

Undirrituð var viljayfirlýsing við fyrirtækið Greenstone, sem var milliliður fyrir Morgan Stanley bankann sem hugðist hýsa sín rafrænu gögn í gagnaverinu. Vorið 2012 slitnaði upp úr viðræðunum og Greenstone ákvað að byggja gagnaver í Bandaríkjunum. Sveinn Óskar Sigurðsson, talsmaður Greenstone á Íslandi, kenndi þáverandi ríkisstjórn um hvernig fór.

Arnar Þór segir að vissulega hafi það verið vonbrigði að ná ekki að klára samningana við Greenstone á sínum tíma. „Það fjaraði svolítið undan þessu en nú í ár er ég aftur farinn að merkja meiri áhuga á Íslandi í tengslum við uppbyggingu gagnavera. Ég hef nýlega fengið fyrirspurnir frá fyrirtækjum í Evrópu, Bandaríkjunum og Mið-Austurlöndum,“ segir Arnar Þór, sem vill ekki fara nákvæmlega út í það hvaða aðila sé um að ræða.