Eftirlitstofnun EFTA (ESA) hefur kallað eftir athugasemdum við ákvörðun sína um að hefja rannsókn á stuðningi íslenska ríkisins og Reykjanesbæjar við Verne Holdings, sem hyggst byggja gagnaver á Suðurnesjum. Íslensk stjórnvöld tilkynntu ESA í september síðastliðnum um þá fyrirtætlan sína að veita Verne Holding ehf. sérákveðna byggðaaðstoð í formi undanþágu frá ýmsum sköttum og gjöldum í allt að 13 ár.

Um er að ræða þak á tekjuskatt fyrirtækisins, ívilnandi fyrningarreglur, ýmis lægri gjöld, undanþágur frá tollum og vörugjöldum og ýmsar fleiri ívilnanir. ESA hefur efasemdir um að þessar ívilnanir samrýmist EES-samningnum. Samkeppnisaðilar, hagsmunaaðilar og allir aðrir sem telja sig málið varða eiga þess kost að senda athugasemdir sínar til ESA fram til 28. febrúar næstkomandi. Unnt er að óska nafnleyndar.