Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, skrifaði nýverið undir samning við Landsskrifstofu Menntaáætlunar ESB um styrk vegna framkvæmdar á Evrópuverkefni er heitir FFEMALE, Fostering Female Entrepreneurship Through Mentoring and Learning in Europe. Verkefnið var eitt af þremur er nýlega fengu styrk úr Leonardo-áætlun Evrópusambandsins.

Um yfirfærsluverkefni er að ræða og snýst um að auka færni og hæfni frumkvöðlakvenna sem nýlega hafa stofnað fyrirtæki.

Markmið verkefnisins er að auka færni þessa hóps og gera þær þar með hæfari til að reka sín fyrirtæki og skapa fleiri störf. Sett verður upp fræðsla fyrir frumkvöðlakonur sem fléttar námsþætti eins og stefnumótun, fjármál, skatta- og bókhald, vöruþróun, markaðsmál, útflutning og samfélagsmiðla við sjálfseflingu og markmiðasetningu. Segir á vef Vinnumálastofnunar að aðferðin hafi verið notuð í Bretlandi með góðum árangri og verði nú yfirfærð til Íslands, Spánar og Litháen.