Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs og formaður nefndar um fjárfestingaumhverfi lífeyrissjóðanna á vegum landssamtaka lífeyrissjóða, segir að lífeyrissjóðir hafi almennt ekki breytt sinni fjárfestingastefnu í meginatriðum þrátt fyrir að krefjandi aðstæður séu uppi í efnahagslífinu.

„Það sem segja má um fjárfestingastefnu lífeyrissjóðanna er að þær eru vel flestar opinberar og eru mótaðar í október, nóvember í fyrra,“ segir Ólafur og bætir við að lífeyrissjóðum beri samkvæmt reglum að skila inn stefnu sinni fyrir 1. desember hvert ár.

„Vel flestar stefnurnar hafa vikmörk þar sem tiltekið er að lífeyrissjóðir eigi að eiga tilteknar eignir í innlendum hlutabréfum. Einhverjir hafa verið með vikmörk sem eru sirka 5% upp eða niður en einhverjir lífeyrissjóðir hafa vikmörk til þess að vinna með taktískar eignabreytingar þannig að þá geta sjóðir nýtt tækifærið og brugðist við ógnum með því að víkja aðeins frá markmiðinu. Ég geri þannig ráð fyrir að miðað við núverandi aðstæður þá virðist ekki vera að þótt það komi dálítil niðursveifla að þá sé ávöxtun flestra sjóðanna ekki endilega neikvæð. Þannig að þeir eru að horfa í gegnum skammtímasveiflur og reyna að halda festu í langtímastefnunni sinni.“

Misskilnings gætir

Samkvæmt 36. grein laga um lífeyrissjóði er ákvæði sem kveður á um að lífeyrissjóðir megi ekki eiga meira en 50% í erlendum gjaldeyri. Ólafur segir að margir misskilji þessa grein á þann veg að lífeyrissjóðir megi ekki eiga meira en 50% í erlendum eignum. „Það sem reglan segir er að ef lífeyrissjóðir ætla að eiga meira en 50% í erlendum eignum að þá er þeim skylt að selja umframeignina framvirkt í krónur og verja með gjaldeyrisvörnum þann hluta þannig að gjaldeyrisstaða sjóðsins fari ekki upp fyrir 50%.“

Ólafur segir að heimildir lífeyrissjóða til að kaupa í geirum sem eru líklegar til að skila sjóðsfélögum viðeigandi ávöxtun séu tiltölulega rúmar. „Það er enginn sérstakur greinarmunur gerður á því hvers eðlis reksturinn er. Aðalatriðið er bara að hann sé sjálfbær og skili viðeigandi ávöxtun fyrir sjóðsfélaga.“ Hann bætir við að það gildi það sama á Íslandi eins og annars staðar í heiminum að stofnanafjármagn sé að vaxa og það sjáist á hluthafalistum skráðra  hlutafélaga. Það sé því ekkert óeðlilegt við það að lífeyrissjóðir teljist til stærri hluthafa í skráðum hlutafélögum. Spurður hvort það sé fýsilegt fyrir lífeyrissjóðina að auka hlut sinn í erlendum eignum um þessar mundir segir Ólafur að það geti vel verið.

„Erlendar fjárfestingar hafa verið að vaxa og það gildir líka um áhættudreifinguna að hlutfall lífeyrissjóða í erlendum eignum hefur verið að vaxa en við megum ekki gleyma því að skuldbindingarnar eru í krónum. Við erum að greiða lífeyri í íslenskum krónum og ef eignir lífeyrissjóðs væru að fullu leyti í erlendri mynt þá myndi tryggingarstaða lífeyrisins sveiflast miðað við gengi krónunnar,“ segir Ólafur og bætir við að ef maður rýnir í fjárfestingastefnur lífeyrissjóðanna þá stefni þeir flestir á að hækka hlutfallið af erlendum eignum.

Ólafur segir að hann telji það ólíklegt að lífeyrissjóðirnir muni gera drastískar breytingar á stefnu sinni í ljósi ástandsins. „Það getur gerst að þegar miklar breytingar verða á eignaliðum að þá getur verið að einhverjir tilteknir eignaflokkar slái í vikmörk og þá er spurning hvort lífeyrissjóðir bregðist við með viðskiptum. En nei, ég tel ekki að þeir muni gera drastískar breytingar á sinni stefnu. Stefnan á einfaldlega að virka til lengri tíma og virka bæði í samdrætti og blóma.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .