Ráðstafa ætti fjórðungi af hreinu innflæði til lífeyrissjóðanna til erlendra fjárfestinga, sem og viðskiptaafgangi umfram 5% af vergri landsframleiðslu, að mati þeirra Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar, en í dag kemur út rit eftir þá sem ber heitið Áhættudreifing eða einangrun. Ritið fjallar um tengsl lífeyrissparnaðar, greiðslujafnaðar og erlendra fjárfestinga og er gefið út af Landssamtökum lífeyrissjóða.

Í ritinu segir að allt frá því að Ísland varð að sjálfstæðu myntsvæði eftir fullveldi árið 1918 hafi landið glímt við ójafnvægi í greiðslujöfnuði og á gjaldeyrismarkaði. Sá órói hafi smitast inn í efnahagslífið með óstöðugleika og verið orsök bæði hafta og sífelldra gengisfellinga.

Leggja þeir til að tryggt verði að hlutfall erlendra eigna af heildareignum lífeyrissjóðanna, sem nú er um 22%, lækki ekki frekar og að fjórðungi af hreinu innflæði til sjóðanna verði alltaf ráðstafað til erlendra fjárfestinga. Eru það um 10 milljarðar á ári. Einnig vilja þeir að unnið verði að því að auka hlutfall erlendra eigna sjóðanna eftir því sem svigrúm gefst til í greiðslujöfnuði á næstu árum með það að markmiði að sem stærstur hluti af hreinu innflæði til sjóðanna verði fjárfestur erlendis. Þannig verði komið í veg fyrir að uppsöfnun lífeyrissparnaðar valdi ruðningsáhrifum á annan sparnað í landinu og skapi hættu á eignabólu. Leggja þeir því til að viðskiptaafgangi sem er umfram 5% af landsframleiðslu verði ráðstafað til þess að hækka hlutfall erlendraeigna lífeyrissjóðanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .