Á föstudaginn funduðu Gunnar Pálsson sendiherra og Valiollah Afkhami-Rad, forstöðumaður viðskiptastofnunar Íran, um möguleika á nánara samstarfi á sviði efnahagsmála milli Íslands og Íran. Frá þessu er sagt á miðlinum PressTV.

Afkhami-Rad lýsti þeirri stefnu stjórnvalda Íran að auka tengsl við önnur ríki og hvernig samskipti við önnur ríki hafa batnað. Hann sagðist telja að miklir möguleikar fælust í samstarfi milli Íslands og Íran, t.a.m. á sviði vísinda í tengslum við fiskveiðar, grænnar orku, jarðvísinda og á sviði ferðaþjónustu.

Gunnar tók í sama streng og bauð viðskiptasendinefnd Íran að taka þátt í sjávarútvegssýningu sem haldin verður í Reykjavík í lok september.