Nýtt lagafrumvarp, sem lagt var fram af þingmönnum Vinstri grænna - þeim Svandísi Svavarsdóttur, Bjarkey Olsen og Steinunni Þóru Árnadóttur, gerir frambjóðendum í 10 efstu sætum framboðslista til Alþingis og sveitarstjórna skylt að gera grein fyrir fjárhag sínum og maka sinna þegar framboðið er lagt fram.

Í greinargerð frambjóðenda skulu koma fram heildartekjur á árinu fyrir kosningar, auk upplýsinga um eignir og skuldir bæði frambjóðandans og makans. Hið sama á að eiga við um frambjóðendur til embættis forseta Íslands.

Tilgangur frumvarpsins er að auka gagnsæi og styrkja trúverðugleika kjörinna fulltrúa á Alþingi, sveitarstjórnum og forseta Íslands. Í frumvarpinu segir að til þess að kjósandi geti varið atkvæði sínu í samræmi við eigin vilja og skoðanir þurfi hann að þekkja til stefnumiða stjórnmálaaflanna.