Á nýloknum fundi, þar sem ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar frá því í morgun um að sveiflujöfnunarauka á eigið fé bankanna yrði áfram 0% vegna efnahagsaðstæðna var rædd, kenndi ýmissa grasa. Á fundinum sátu Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sem jafnframt er formaður nefndarinnar og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og staðgengill formanns nefndarinnar, fyrir svörum.

Ein spurning fundarins, sem kom frá Jóni Bjarka Bentssyni, aðalhagfræðingi Íslandsbanka, sneri að lífeyrissjóðum, lágvaxtaumhverfinu sem nú er við lýði hér á landi og þeim áskorunum sem það skapar á fjármálamarkaði. Spurning Jóns Bjarka var eftirfarandi:

Hefur nefndin áhyggjur af því að lágvaxtaumhverfi, sem vísað er til í yfirlýsingu, leiði til aukinnar áhættusækni lífeyrissjóða hvað varðar tegund eigna og myntsamsetningu? Mun hún leggja til einhvern regluramma til þess að takmarka áhrif þessa á fjármálastöðugleika?

Orðin sem Jón Bjarki vísar til úr yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar eru eftirfarandi: „Lágvaxtaumhverfi skapar nýjar áskoranir á fjármálamarkaði. Sérstaklega á þetta við um lífeyrissjóði sem eru ráðandi þátttakendur á innlendum fjármálamarkaði og kerfislega mikilvægir. Mikilvægt er því að við stefnumótun lífeyrissjóðakerfisins sem nú stendur fyrir dyrum verði tekið mið af áhrifum þeirra á fjármálastöðugleika."

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, játaði því að hann hefði vissulega áhyggjur. „Þetta er í sjálfu sér frekar einföld fjármálafræði. Lífeyrissjóðirnir eru gerðir upp með 3,5% raunávöxtunarkröfu sem að markar lífeyrisréttindin. Þegar þetta viðmið var sett á voru áhættulausir vextir í landinu miklu hærri en þeir eru í dag, eða á bilinu 5-6% eða eitthvað álíka. Það liggur í hlutarins eðli að ef lífeyrissjóðirnir hafa eitthvað ákveðið markmið til framtíðar um ávöxtun lífeyrispeninganna, og áhættulausir vextir lækka verulega, eins og þeir hafa verið að gera, ekki bara núna heldur á síðustu 20 árum, þá leiðir það til þess að lífeyrissjóðirnir verða að sækja í aukna áhættu til þess að geta staðið við þessar skuldbindingar. Það er deginum ljósara," sagði hann og bætti við:

„Að sumu leyti er það ekki alslæmt því það er ekki endilega heppilegt að lífeyrissjóðir eigi bara ríkisskuldabréf. Í sjóðasöfnunarkerfi eins og við búum við, ef það er þannig að lífeyrissjóðir keyptu bara ríkisskuldabréf þá værum við komin upp í gegnumstreymiskerfi. En á móti kemur þá má hafa áhyggjur af því að eina leiðin til þess að lífeyrissjóðir geti skilað 3,5% tryggingafræðilegri kröfu, er það að þeir taki meiri áhættu, þeir taki að einhverju leyti það sem við köllum „credit spread" eða „corporate áhættuálög", fari meira í hlutabréf o.s.frv. Það er alveg ástæða til þess að hafa áhyggjur af því.

Eins og kemur fram í yfirlýsingu nefndarinnar þá eru sjóðirnir kerfislega mikilvægir, það er enginn vafi á því. Við erum með þrjá kerfislega mikilvæga banka og búið er að búa til mjög þéttan ramma í kringum þá, til þess að tryggja það að það sem þeir eru að gera hafi ekki neikvæð áhrif á hagkerfið okkar. Með einhverjum hætti þarf að setja svipaðan ramma í kringum lífeyrissjóðina. Nákvæmlega hvernig það er annað mál en það liggur fyrir að þess þarf ef við eigum að geta rekið þetta fjármálakerfi og hagkerfi hér í þessu landi með sómasamlegum hætti."

Óeðlilegt ef ekki yrðu gerðar sömu kröfur til lífeyrissjóða og banka

Eftir að Ásgeir hafði lokið máli sínu greip varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Gunnar Jakobsson, orðið til að bæta tvennu við.

„Í fyrsta lagi eru lífeyrissjóðirnir mjög stórir, þannig að ef þeir þurfa að fara færa vigtir í eignasafninu í átt að áhættumeiri eignum þá er framboðið á áhættumeiri eignum ekkert endilega mikið á Íslandi. Því verða þeir svolítið að huga að heildarmyndinni þar. Eins og Ásgeir segir þá er það ekkert endilega slæmt að þeir séu að huga að eignasafninu og að það séu gerðar ákveðnar kröfur til ávöxtunar. En hins vegar held ég að í þeirri endurskoðun sem nú liggur fyrir dyrum, eins og segir í yfirlýsingunni, að það verði þá allavega tekið mið af þessu og þetta verði þá gert með opin augu og meðvitað," sagði Gunnar.

„Í öðru lagi er rétt að nefna í þessu samhengi og Ásgeir kom inn á með umgjörðina, að það er ekki heppilegt að lífeyrissjóðir breytist í lánastofnanir án þess þá að þeir séu með þá umgjörð innanhúss varðandi áhættustýringu, þekkingu á því að vinna úr lánum þegar bjátar á eða herðir að o.s.frv. Þannig að það er heilmikil umgjörð sem hefur verið byggð upp í bankastarfsemi, bæði á Íslandi sem og annarsstaðar, sérstaklega eftir 2008. Það væri óheppilegt ef lífeyrissjóðir færu frekar inn í bankastarfsemi án þess að vera undir sömu kröfum og bankar. Það þarf að huga að því líka," bætti hann við.

Ábati fólginn í að tryggja samstillingu aðila í hagkerfinu

Að máli Gunnars loknu tók Ásgeir til máls á ný og ræddi erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna.

„Hvað varðar erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna, sem eru vissulega nauðsynlegar, þá skiptir máli að þær séu í einhverjum þjóðhagslegum takti og þeir hafa unnið með Seðlabankanum í því eins og það að hafa tekið sex mánaða fjárfestingahlé í vor og sumar þegar mest lá við. Það er gríðarlegur ábati sem fellst í því fyrir þjóðina og landið allt ef okkur heppnast það að tryggja ákveðna samvinnu eða samstillingu aðila í hagkerfinu.

Þá minni ég á það að lífeyrissjóðir eru ekki venjulegir fjárfestar, það er þjóðin öll sem á peninga þarna, stór hluti er með skylduáskrift og eiginlega allur frjáls sparnaður fer þarna inn. Þegar ég segi þetta er það alls ekki með neikvæðum hætti, því lífeyrissjóðakerfið er mjög vel heppnað og hefur gengið mjög vel. Þetta er mjög gott kerfi. Ég veit ekki hvort Íslendingum hlakki almennt til efri áranna en þetta gefur allavega tilefni til þess; hvað það hefur gengið vel að ávaxta lífeyrissparnaði og hvað kerfið hefur að öllu leyti gengið vel. Við erum núna að sjá fyrstu kynslóðirnar fara á eftirlaun sem hafa verið nægilega lengi í kerfinu til þess að safna réttindum og það er mjög jákvætt."

Þá skaut Gunnar því að að rætt hefði verið í nefndinni að það sé vissulega heppilegra að hafa þessar áskoranir. „Þ.e.a.s. að kerfið sé stórt og að það búi við ákveðna ávöxtunarkröfu, fremur en ef kerfið væri lítið og það væri engin áhætta því samhliða. Ef tvennu eru þær áskoranir betri."

„Þannig að það komi fram þá erum við Gunnar mjög jákvæðir í garð lífeyrissjóðanna og við elskum þá," bætti Ásgeir kíminn við að lokum.