Ríkið hefur margvíslegan hag af því að horfa til svokallaðrar samvinnuleiðar við innviðauppbyggingu að því er kemur fram í nýrri skoðun Viðskiptaráðs . Með samvinnuleið er átt við samstarf einkaaðila og hins opinbera en það hefur einnig verið kallað PPP (Public private partnership) en Hvalfjarðargöng eru ef til vill þekktasta dæmið um slíkt á Íslandi.

„Algengasta mynd PPP verkefna er 20–25 ára samningar þar sem verkefnið er í 100% eigu einkaaðilanna. Í slíkum samningi er hönnun, framkvæmd, rekstur og viðhald á herðum einkaaðila. Að samningstíma loknum er eignin afhent hinu opinbera, ýmist gjaldfrjálst eða gegn fyrirfram ákveðnum skilmálum,“ segir í skoðuninni.

Þá segir einnig að Viðskiptaráð hafi bent á að uppsöfnuð fjárfestingaþörf hins opinbera sé um 70 milljarðar á árunum 2010-2015 og því liggi beint við að leita eftir aðkomu einkaaðila að ýmsum vekrefnum. Þó sé ábátinn ekki aðeins aðgangur að fjármagni heldur felist í aukinni áhættudreifingu, aukinni skilvirkni, auknu svigrúmi ríkisins til að sinna grunnþjónustu og stöðugra viðhaldi. Hið opinbera hafi tekið ríka áhættu við ýmsar framkvæmdir sem hafi valdið því auknum kostnaði á endanum t.d. í tilviki Orkuveituhússins, Landeyjahafnar og Hörpunnar.

„Samkvæmt rannsókn Ríkisendurskoðunar Bretlands voru samstarfsverkefni afhent á eða á undan áætlun í 65% tilfella samanborið við 54% opinberra verkefna. Þá voru rétt tæplega 70% verkefna afhent á kostnaðaráætlun en 63% hjá hinu opinbera.

Þá kom fram í bandarískri rannsókn á vegaframkvæmdum einkaaðila þarlendis að einkaframkvæmdir hafi farið að meðaltali 0,81% fram úr kostnaði og auk þess afhent að meðaltali á réttum tíma samanborið við 12,71% framúrkeyrslu á kostnaði og 4,34% á tíma hjá hinu opinbera,“ segir í skoðuninni.

Á Íslandi megi horfa til rannsóknar Dr. Þórðar Víkings Friðgeirssonar hjá Háskólanum í Reykjavík en þar koma framfram vísbendingar um að á árunum 1990–2010 hafi 90% opinberra framkvæmda farið fram úr áætlunum og nam meðal framúrkeyrsla í tengslum við kostnað að meðaltali 63%. Til samanburðar hafi Hvalfjarðargöng farið 24% fram úr kostnaðaráætlun.

Dæmi um PPP framkvæmdir
Dæmi um PPP framkvæmdir
© Skjáskot (Skjáskot)