*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 3. mars 2015 10:32

Vilja bætt samkeppnisumhverfi í upplýsingatækni

Ný stjórn Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja hefur tekið til starfa.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Ný stjórn SUT, Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja var kosin á aðalfundi félagsins þann 20. febrúar síðastliðinn.

Stjórnina skipa þau Haukur Hannesson framkvæmdastjóri AGR sem er jafnframt formaður stjórnar, Finnur Oddsson forstjóri Nýherja, Heimir Fannar Gunnlaugsson framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi, Jóhann Jónsson forstöðumaður viðskiptaþróunar og reksturs Advania, Sigurður Stefánsson fjármálastjóri CCP, Ragnheiður H. Magnúsdóttir forstjóri Hugsmiðjunnar og Pétur Orri Sæmundsen forstjóri Kolibri.

Velta samtals 50 milljörðum

Samtök upplýsingatæknifyrirtækja, SUT, starfa innan Samtaka iðnaðarins sem starfsgreinahópur á hugverkasviði. Alls tilheyra 45 fyrirtæki samtökunum en um þessar mundir má áætla að virk fyrirtæki sem tilheyra upplýsingatæknigeiranum séu um 200 talsins og velta þeirra samkvæmt ISAT ríflega 50 milljarðar á ári.

Meginmarkmið SUT er að vinna að brýnustu hagsmunarmálum íslenskra upplýsingatæknifyrirtækja og segir Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins hagsmunamál fyrirtækja á þessu sviði margvísleg.

„Á síðasta ári var ákveðið að fara í stefnumótandi vinnu innan SUT til að skerpa á málefnum og forgangsraða verkefnum. Eftir ýtarlega könnun kom í ljós að tvö málefni stóðu upp úr. Annars vegar að bæta samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja í iðnaðinum og hins vegar að auka framboð af menntuðu starfsfólki í upplýsingatækni,“ segir Almar.

Vilja skýrari reglur um virðisaukaskatt

Haukur Hannesson nýr formaður stjórnar SUT segir félagið gegna lykilhlutverki í bættu samkeppnisumhverfi upplýsingatæknifyrirtækja.

„Dæmi um málefni sem við höfum verið að vinna í er að fá skýrari reglur um virðisaukaskatt á þjónustu okkar við fjármálafyrirtæki. Velta okkar fyrirtækja gagnvart fjármálafyrirtækjum hleypur á milljörðum. Hingað til hafa reglur verið óskýrar og erfitt fyrir okkar félagsmenn að átta sig á hvaða þjónusta er virðisaukaskyld. Bæði hefur þetta áhrif á samkeppnisumhverfi fyrirtækja okkar sem og áhrif á ákvarðanir um hvort þjónusta skuli vera keypt beint af okkar fyrirtækjum eða unnin af starfsmönnum fyrirtækjanna sjálfra.“