*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 7. apríl 2018 10:02

Vilja bætur vegna hótels á Hörpureit

ÞG verk hafa stefnt byggingarrétthafa Marriott hótelsins við Hörpu vegna ólöglegs útboðs á byggingu hótelsins.

Ingvar Haraldsson
Marriott Edition verður fimm stjörnu hótel með 250 herbergjum. Búist er við að það opni á næsta ári.
Haraldur Guðjónsson

ÞG verk hafa stefnt Cambridge Plaza Hotel Company, byggingarrétthafa Marriott Edition hótelsins sem nú rís við hlið Hörpu, vegna meintra brota á útboðsreglum, vegna útboðs á uppsteypu hótelsins, á síðasta ári. Deilan snýst um að lægsta tilboði, sem kom frá ÞG verk, hafi ekki verið tekið. Þess í stað hafi verið samið við ÍSTAK sem bauð í frávikstilboði átta milljónum hærri upphæð en ÞG verk. Þá hafi frávikstilboð ÍSTAK ekki verið lesið upp við opnun tilboða líkt og önnur tilboð sem ekki stenst útboðsreglur að sögn Bjarka Þórs Sveinssonar lögmanns ÞG verks. Því hafi ekki verið heimilt að taka tilboðinu og fer ÞG verk því fram á viðurkenningu á bótakröfu þar sem það hafi þar með átt hagstæð­asta tilboðið.

Cambridge stefndi Mannviti inn í málið

Mannvit sá um útboðið fyrir Cambridge Plaza og hefur Cambridge Plaza stefnt Mannviti inn í málið. Sé Cambridge Plaza bótaskylt vegna útboðsins fer það fram með kröfu á Mannvit.

Telja tilboð ÍSTAK hafa verið gilt

Sigurður S. Júlíusson, lögmaður Mannvits, segir að ekki hafi þurft að lesa upp frávikstilboð á fundinum miðað við ákvæði laga um framkvæmd útboða. „Jafnvel þó það sé rangur skilningur hjá okkur og það hafi átt að lesa upp öll tilboð­ in þá gerir það ekki það að verkum að tilboðið sé ógilt þó að tilboðið sé ekki lesið upp,“ segir Sigurður. Þá hafi tilboð ÍSTAKs verið metið hagstæðara þar sem þeir hafi lofað að skila af sér verkinu mánuði fyrr en ÞG verk, sem hafi mun meiri fjárhagslegan ávinning í för með sér en þær átta milljónir sem munað hafi á tilboðunum.

Útboðið fór fram í byrjun árs 2017 en fyrsta skóflustunga að hótelbyggingunni var í maí sama ár. Stefnt er á opnun hótelsins á næsta ári sem verður annað fimm stjörnu hótel landsins með 250 herbergjum. Þegar allt er talið er búist við að hótelið muni kosti vel á annan tug milljarða

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.