Fimm þingmenn Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins hafa lagt fram frumvarp um að að arðgreiðslur fjármálafyrirtækja megi einungis fara fram í peningum í uppgjörsmynt fyrirtækisins. Það hefði í för með sér til að mynda að Arion banka yrði óheimilt að greiða Valitor í arð til eigenda bankans líkt og verið hefur til skoðunar innan bankans.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, segir að tilgangur frumvarpsins sé að girða fyrir að eignum fjármálafyrirtækis sé skotið undan á virði sem sé undir bókfærðu virði eignanna. „Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að bókfært verð eignar félags er sjaldnast það sama og raunvirði eignarinnar,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

„Ef það yrði greiddur arður í formi hlutabréfa þá er ekki komið markaðsvirði á það. Það er algjörlega matskennt hvaða verðmæti slíkra hlutabréfa er,“ segir Smári.

Margir hafi áhyggjur af Arion

Kaupþing vinnur nú hörðum höndum að skráningu Arion banka á markað. „Fólk hefur áhyggjur af því að það sé eitthvað skrítið að gerast með Arion,“ segir Smári.

Arion banki hefur haft til skoðunar að dótturfélög bankans verði greidd út í arð fyrir skráningu. „Auðvitað ætti það að vera öllum í hag að geta slegið á slíkan ótta með því að vita af því að regluverkið er þeim mun sterkara. Við viljum ekki að það sé verið að veikja okkur með einhverjum göllum í lagaumhverfinu,“ segir Smári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .