ÁTVR gæti beitt fyrir sig svokölluðu keimlíkindaákvæði og fengið heimild til að neita að selja ákveðnar áfengistegundir ef umbúðir þeirra þykja líkjast of mikið óáfengum vörum. Fréttablaðið hefur eftir Félagi atvinnurekenda  að ákvæðið gangi gegn lögum. Frumvarp þessa efnis er til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Blaðið segir tilganginn þann að stemma stigu við því að hægt sé að sniðganga bann við áfengisauglýsingum með því að auglýsa óáfenga drykki sem eru í líkum umbúðum og áfengir drykkir.

Félag atvinnurekenda segir í umsögn með frumvarpinu að ákvæðið sé svo víðtækt og óskýrt að það geti takmarkað atvinnu- og tjáningarfrelsi í landinu. Framleiðendur áfengra drykkja gætu þurft að velja milli þess að auglýsa áfenga vöru eða óáfenga. Félagið telur því að fella verði út umrætt ákvæði. Samtök iðnaðarins taka í sama streng.