Í frumvarpi menntamálaráðherra um breytingar á fjölmiðlalögum er m.a. að finna bann við birtingu niðurstaðna skoðanakannana á kjördag eða daginn fyrir kosningar. „Þá verði fjölmiðlaveitu einnig óheimilt að vísa til annarra heimilda um skoðanakannanir og/eða niðurstöður úr þeim sem gerðar eru á þessu tímabili,“ eins og segir í frumvarpinu.

Þar segir jafnframt að með banninu sé ætlunin að veita kjósendum frekara svigrúm til að mynda sér skoðun á kjördag og daginn fyrir kosningar.

Í greinargerðinni segir að Ísland skeri sig úr hópi nágrannaríkja sinna að því leyti að hér á landi sé ekki kveðið á um í lögum að setja skuli nánari reglur um umfjöllun fjölmiðla um framboð í aðdraganda kosninga. Er t.d. bent á að í Bretlandi og Noregi sé bannað að birta í útvarpi og sjónvarpi auglýsingar frá stjórnmálahreyfingum sem greitt sé fyrir birtingu á.