Stjórnvöld í Suður-Kóreu hyggjast leggja til að viðskipti með rafmyntir verði bannaðar þar í landi að því er fréttastofa Reuters greinir frá. Fyrirætlanir þeirra hafa orðið til þess að verð á bitcoin hefur lækkað um 1.000 dali frá því í gær og stendur nú í um 13.700 dölum. Mikil eftirspurn hefur verið eftir rafmyntum í Suður-Kóreu en landið er talið vera mikilvægur markaður fyrir bitcoin og aðrar myntir.

Bannið er þó ekki líklegt til þess að taka gildi í bráð því frumvarp þess efnis hefur ekki verið lagt fyrir suður-kóreska þingið og allt ferlið gæti tekið mánuði eða jafnvel ár.

Þá hafa löggæsluyfirvöld í landinu einnig gert húsleitir hjá kauphöllum með rafmyntir vegna meintra skattaundanskota.