Ísland mun leggja áherslu á að fjölga þeim hrossum sem árlega má flytja tollfrjálst til Evrópusambandsríkjanna en tollfrjáls innflutningur takmarkast nú við 100 hross á ári. Á næstunni hefjast viðræður íslenskra stjórnvalda við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um endurskoðun á skilyrðum fyrir viðskipti með landbúnaðarafurðir. Samkvæmt EES-samningnum skal slík endurskoðun fara fram reglulega í þeim tilgangi að auka smám saman frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lýsti sig nýlega reiðubúna til að hefja samningaviðræður við Ísland samkvæmt 19. gr. EES-samningsins sem mælir fyrir um áðurnefnda endurskoðun. Í Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, er haft eftir Grétari Má
Sigurðssyni skrifstofustjóra að Ísland muni leggja áherslu á að fjölga þeim hrossum sem árlega má flytja tollfrjálst til Evrópusambandsríkjanna en tollfrjáls innflutningur takmarkast nú við 100 hross á ári. "Ísland mun jafnvel leggja til að tollar á hross verði alfarið felldir niður. Af hálfu Íslands verður einnig lögð áhersla á að auka tollfrjálsan innflutningskvóta á lambakjöti sem nú er 1350 tonn en þau tíðindi urðu á síðasta ári að kvótinn var fullnýttur í fyrsta sinn."