Kjartan Magnússon og Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, lögðu fram tillögu á borgarráðsfundi í gær um að bjóða út rekstur Hörpu. Tillagan hafði áður verið lögð fram 10. Október en verið frestað. Tillögu þeirra var vísað frá með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Í bókun frá borgarráðsfulltrúum Besta flokksins og Samfylkingarinnar segir að fyrirkomulag rekstrar tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu hafi verið skoðað mjög ítarlega frá öllum hliðum undanfarin misseri. Niðurstaðan af þeirri rýni sé það fyrirkomulag sem nú sé starfað eftir. „Rekstur menningar- og ráðstefnuhluta starfseminnar er aðskilinn og þess gætt að ráðstefnudeild Hörpu greiði sinn hluta af sameiginlegum rekstrarkostnaði byggingarinnar og greiði leigu á markaðskjörum. ESA hefur haft til skoðunar hvort starfsemi Hörpu samrýmist ríkisstyrkjareglum EES og niðurstaðan er sú að fjármögnun Hörpu samræmist þessum reglum,“ segir í bókun borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar.

Kjartan Magnússon segir í samtali við VB.is að tillaga hans og Júlíusar Vífils komi niðurstöðu ESA ekkert við. Tilgangurinn með tillögunni hafi verið að ná hagkvæmni í rekstri Hörpu. Í bókun sem Kjartan og Júlíus Vífill lögðu fram á borgarráðsfundinum harma þeir að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins vilji ekki leita leiða til að auka hagkvæmni. „Ýmislegt bendir til þess að hægt væri að ná fram sparnaði og hagræðingu í rekstri hússins með slíku útboði eins og fjölmörg dæmi eru um úr opinberum rekstri. Fýsilegt er að skoða slíka útboðsleið í hagræðingarskyni óháð aðskilnaði á rekstri menningar- og ráðstefnuhluta starfseminnar,“ segir í tillögunni.