Bandaríska fyrirtækið Triumvirate Environmental hefur óskað eftir því við stjórn Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja að kaupa sorpbrennslustöðina Kölku sem er í eigu sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kölku en sorpbrennslustöðin sem er í Helguvík var tekin í notkun árið 2004 og er stærsta sorpbrennslustöð landsins.

Fram kemur í tilkynningunni að Kalka var sett í söluferli fyrir u.þ.b. tveimur árum og þá bárust tvö tilboð í stöðina en hvorugt þeirra reyndist ásættanlegt eða aðgengilegt. Þá kemur fram að á fundi með fulltrúum eigenda Kölku síðast liðinn föstudag kynntu forsvarsmenn Triumvirate Environmental viljayfirlýsingu sína og áhuga um kaup á sorpbrennslustöðinni en fyrirtækið hyggst nýta stöðina til að brenna úrgangi frá dótturfélagi sínu í Kanada sem fellur innan þess starfsleyfis sem stöðin hefur.

„Fram kom einnig í máli fulltrúa Triumvirate Environmental að félagið hefur á undanförnum árum leitað að starfandi sorpbrennslum sem ekki eru fullnýttar til þess að auka við brennslugetu fyrirtækisins með hagkvæmum hætti. Sorpbrennsla Kölku mætir að þeirra sögn þeirri þörf þrátt fyrir háan flutningskostnað frá Kanada,“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni býðst sveitarfélögunum sem nú eiga hlut í stöðinni að kaupa áfram þjónustu sorpbrennslustöðvarinnar verði af kaupunum og jafnframt býðst þeim að eiga hlut í stöðinni kjósi þau svo.

Triumvirate Environmental hefur lýst sig reiðubúið til að greiða allt að 10 milljónum bandaríkjadala eða jafnvirði um 1.250 milljóna íslenskra króna fyrir eignir fyrirtækisins en skuldir Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja í dag nema um 950 milljónum króna. Upphaflega var gert ráð fyrir að viljayfirlýsingin gilti til dagsins í dag, 29. febrúar en hinir bandarísku aðilar hafa lýst því yfir að þeir séu reiðubúnir til að framlengja þann frest á meðan málið er til umfjöllunar hjá eigendum stöðvarinnar.

Á kynningarfundinum s.l. föstudag var ákveðið að vísa erindinu til umfjöllunar og ákvörðunar sveitarfélaganna sem eiga Sorpeyðingarstöð Suðurnesja. Þetta mál er enn á frumstigi og engar frekari upplýsingar fyrirliggjandi um það fyrr en viðkomandi sveitarstjórnir hafa lokið umfjöllun sinni.

„Það skal tekið fram að tilboð Triumvirate Environmental í Kölku kemur því aðeins til álita ef tryggt er að öllum umhverfiskröfum sé fullnægt sem og lögum og reglum sem íslensk stjórnvöld setja um starfsemi stöðvarinnar,“ segir í tilkynningunni.