Lífeyrissjóðum mun innan tíðar verða heimilt að fjárfesta í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á hliðarmarkaði Kauphallarinnar ef nýtt frumvarp nær fram að ganga. Í dag er lífeyrissjóðum heimilt að fjárfesta fyrir allt að 20% af hreinni eign í verðbréfum sem ekki eru skráð á skipulegan markað. Það hlutfall var hækkað úr 10% vegna óeðlilegra aðstæðna á fjármálamark aði vegna gjaldeyrishafta.

Í frumvarpi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sem unnið var í samvinnu við Kauphöllina, er hins vegar lagt til að fjárfestingar lífeyrissjóða á First North flokkist sem skráðar eignir til jafns við verðbréf sem skráð eru á skipulegan markað. Hingað til hafa bréf á þeim markaði ekki verið skráð og það hefur dregið úr áhuga stjórnenda fyrirtækja og fjárfesta. Viðskiptavakt ónauðsynleg Efnahags- og viðskiptanefnd lagði fram frumvarpið í vor en það komst ekki á dagskrá þingsins.

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir að stefnt sé að því að leggja það aftur fyrir þingið í haust með smávægilegum breytingum. „Við munum í leiðinni taka af vafa um viðskiptavakt. Það verði skýrt að það er ekki nauðsynlegt að hafa viðskiptavakt með hlutabréf svo þau teljist skráð á markaði. Viðskiptavakt er dýr þjónusta og ekki sérstaklega nauðsynleg út frá hagsmunum lífeyrissjóða sem eiga hlutabréf yfirleitt til lengri tíma. Það getur verið útgefanda í hag að kaupa viðskiptavakt en ætti ekki að vera skylda. Lítil félög hafa síður efni á hafa viðskiptavakt og slík krafa væri mjög íþyngjandi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .