Stjórn VR hyggst leggja fram tillögur að breytingum á fyrirkomulagi kosninga félagsins á næsta aðalfundi þess. Tillögurnar snúa að því að hér eftir verði kosið til fjögurra ára í senn í stað tveggja í stöðu formanns, stjórnar og trúnaðarráðs VR en félagið er fjölmennasta stéttarfélag landsins.

Þó mun núverandi formaður, Ragnar Þór Ingólfsson, sem kjörinn var í mars á þessu ári þurfa að sækjast eftir endurkjöri árið 2019 líkt og núgildandi reglur gera ráð fyrir en þá verður kosið til fjögurra ára. Í kjöri sínu í vor felldi Ragnar Þór þáverandi formann VR, Ólafíu B. Rafnsdóttur sem sóttist eftir endurkjöri.

Í núgildandi lögum VR er gert ráð fyrir að helmingur stjórnarmanna sé kjörinn á hverju ári en til tveggja ára í senn. Stjórnarmenn kjörnir árin 2017 og 2018 munu einnig sitja til tveggja ára samkvæmt núgildandi reglum. Verði tillögurnar samþykktar verður fyrst kosið til fjögurra ára á aðalfundi árið 2019 en þá verður helmingur stjórnarmanna kjörinn, sjö talsins. Árið 2020 verða sjö stjórnarmenn kosnir til eins árs en árið 2021 verður helmingur stjórnarmanna kjörinn til fjögurra ára og eftir það verður stjórnarkjör reglubundið annað hvert ár.

Breytingartillögurnar hafa verið lagðar fram áður en það var árið 2014 en þá vísaði meirihluti fundarmanna á aðalfundi tillögunum frá á grundvelli þess að þær þyrftu betri kynningu. Að því er kemur fram á heimasíðu VR er það ástæða þess að tillögurnar eru lagðar með svo góðum fyrirvara nú.