Stjórnarskrárnefnd skilaði af sér 1. áfangaskýrslu í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Nefndin hefur fengið það hlutverk að skila tillögum að breytingu á stjórnarskrá með það fyrir augum að breytingarnar megi gera fyrir lok þessa kjörtímabils. Skýrslan byggir á þeirri vinnu sem hefur farið fram áður varðandi breytingar á stjórnarskránni, meðal annars vinnu Stjórnlagaráðs.

Í skýrslunni er ekki að finna tillögur að ákvæðum eða breytingum sem hönd er á festandi, heldur hefur hluti þeirra álitaefna verið afmörkuð sem munu blasa við þegar breytingar á stjórnarskrá eru annars vegar.

Meðal álitaefna sem nefndin vekur athygli á og kemur til með að taka afstöðu til eru spurningar eins og hvort hugtakið þjóðareign skuli þýða eignaréttur ríkisins á auðlindum í lagalegum skilningi eða hvort hugtakið skuli eingöngu nota sem skírskotun til sameiginlegra hagsmuna þjóðarinnar.

Þá mun nefndin einnig meðal annars fjalla um hvort, og hversu hátt hlutfall kosningabærra manna þurfi til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál. Til viðbótar má þar finna umræður um framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og umhverfisvernd.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna, á sæti í nefndinni. Hún vonast til þess að hægt verði að kjósa um breytingar á stjórnarskrá samhliða forsetakosningum 2016.