Er hægt að koma aftur tólf árum eftir fullnaðaruppgjör og krefjast breytinga á þegar efndu samkomulagi? Hvaða áhrif hefur það á aðila sem ekki voru aðilar að upphaflegum samningum? Er fært að orða dómkröfu þannig til að forðast fyrningarsjónarmið? Þetta er meðal þess sem er undir í máli Lífeyrissjóðs bankamanna (Lífbank) gegn Landsbankanum, Seðlabanka Íslands, Reiknistofu bankanna (RB), Valitor, Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja og ríkinu.

Málið teygir anga sína aftur til síðustu aldar, nánar tiltekið ársins 1997, þegar ráðist var í hlutafélagavæðingu ríkisbankanna. Sjóðurinn, sem þá hét Eftirlaunasjóður starfsmanna Landsbankans og Seðlabanka Íslands, var samtryggingarsjóður með bakábyrgð félaga sem í hann greiddu.

Þegar kom að sölu Landsbankans var afráðið að gera áfallna skuldbindingu upp, fella bakábyrgðina niður og að félögin myndu greiða 14,4% iðgjald eða alls 18,4% með framlagi starfsmanna. Þá var hlutfallsdeild sjóðsins jafnframt lokað og starfsfólki boðið að velja á milli hvort það héldi sig við hana eður ei.

Umrætt samkomulag, sem fól í sér ríflega 7 milljarða greiðslu til sjóðsins, byggði á ákveðnum tryggingafræðilegum forsendum. Strax árið 2004 varð ljóst að þær hefðu ekki allar staðist. Varð það úr að tveimur árum síðar var ritað undir viðbótarsamkomulag. Í því fólst að aðildarfyrirtækin skuldbundu sig til að taka þátt í rekstrarkostnaði sjóðsins auk þess að greiða á annan milljarð króna vegna launahækkana sem höfðu verið umfram forsendur. Að auki var samið um að hafa ekki uppi frekari kröfur vegna samningsins en deilt er um í málinu hvort það hafi aðeins varðað þrætur um launaþróun eða samkomulagið í heild.

Skömmu eftir efnahagshrun lá aftur á móti fyrir á ný að forsendur hefðu ekki staðist og tryggingafræðileg staða sjóðsins orðin neikvæð. Árið 2014 voru réttindi sjóðsfélaga skert um rúm 9% og um 5% árið 2019. Í ljós kom að forsendur um lífslíkur voru foknar út í veður og vind og að nýting á svokallaðri 95 ára reglu hefði verið umfram áætlanir.

Samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns, sem miðar við stöðuna í byrjun árs 2015, vantaði 5,6 milljarða króna upp á sjóðurinn myndi halda réttum kili. Þá liggur einnig fyrir, miðað við nýrri spár, að viðbúið er að neikvæð staða muni aukast um annað eins hið minnsta. Í stað þess að gera hefðbundna peningakröfu er krafa í aðalsök um að samningnum verði breytt en breytingin fæli í sér að að aðildarfyrirtækin greiði umrædda 5,6 milljarða, langstærstur hluti þessi myndi falla á Landsbankann, til að rétta stöðuna aftur í tímann og að bætt verði við ákvæði um ábyrgð fyrir þau ár sem eftir eiga að koma.

Telja samkomulagið ósanngjarnt

Aðalmeðferð málsins fór fram í héraði á mánudag en í málinu reynir á ýmis áhugaverð réttarfars- og tryggingafræðileg atriði sem aðeins verður unnt að gera skil að hluta. Áhugamenn um slíkt, þá sérstaklega tryggingastærðfræðingar, verða að bíta í hið súra epli að hafa misst af veislunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .