Fimm Austfirðingar, þeir Karl Lauritzson, Stefán Sigurðsson, Hlynur Bragason, Georg Pálsson og Kristján Birgisson, hafa stofnað fyrirtækið Austra, brugghús ehf. „Markmiðið með stofnun félagsins er að framleiða gæðabjór með uppruna á Austurlandi,“ segir Karl í samtali við Viðskiptablaðið.

Þeir félagar segja markmiðið að fá sem flesta í lið með sér og stefna að því að fjármagna starfsemina á næstu vikum. „Fjármögnunin er hafin og við höfum gróflega áætlað að hlutafjárþörfin sé á milli 30 og 40 milljóna króna. Lágmarkshlutur er 100 þúsund krónur,“ segir Karl.

Hann segir brugghús á Austurlandi ekki til staðar í dag og þeir hafi fundið fyrir áhuga ferðaþjónustuaðila á að fá staðbruggað gæðaöl. „Vöruþróunin verður unnin í samráði við bruggmeistara, en við höfum séð fyrir okkur að framleiða árstíðabundna bjóra sem hafa tilvísun í okkar fagra umhverfi hér fyrir austan. Að sama skapi höfum við verið að ræða við framleiðendur hér á svæðinu um ræktun hráefnis til vinnslunnar, en það er allt á frumstigi ennþá.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .