Um 57% aðspurðra vilja að nýr spítali verði byggður fyrir hluta þess fjár sem fæst vegna losunar fjármagnshafta, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins . Samkvæmt niðurstöðum hennar eru 25% andsnúin því að hluti fjármunanna verði nýttur í byggingu nýs spítala, 17% eru óákveðin og 2% tóku ekki afstöðu.

„Það er mikill vilji til þess að byggja nýjan spítala og ég tel að fólk líti á það sem forgangsmál. Og það er mjög gott,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, í samtali við Fréttablaðið um niðurstöður könnunarinnar. Hann segir hins vegar að það verði að nýta fjármunina sem fást úr aðgerðunum til að lækka skuldir ríkissjóðs.

Guðlaugur Þór bendir á að verði fjármunirnir nýttir til niðurgreiðslu skulda þýði það að vaxtakostnaður ríkisins lækki. Segir hann að árlegur vaxtakostnaður geti lækkað um 30 milljarða. „Og það er nú bara helmingurinn af byggingarkostnaði við spítala,“ segir hann.